fbpx

Lífsviljaskrá

Lífsskrá eða Lífsviljaskrá (e. advance directive eða living will) er undirritað skjal sem geymir yfirlýstar óskir fólks um meðferð við lífslok sé það sjálft ekki fært um að taka þátt í ákvörðunum um þá meðferð vegna andlegs eða líkamlegs ástands. Lífsviljaskrá er gerð á þeim tíma þegar fólk er hæft til að meta þá kosti sem til greina koma, verði það fyrir alvarlegu heilsutjóni af völdum sjúkdóma eða slysa þannig að litlar eða engar líkur séu á að það muni aftur verða meðvitað um umhverfi sitt og geta tjáð vilja sinn og skoðanir. Einnig er tilnefndur umboðsmaður eða talsmaður sjúklings sem hefur umboð til að taka þátt í umræðu um og upplýsa um óskir sjúklings fyrir hans hönd, sé sjúklingur ekki fær um það sjálfur.  

Í lífsviljaskrá getur fólk meðal annars tekið fram að ekki megi grípa til aðgerða sem beinast að því að lengja líf þess og séu hafnar aðgerðir sem beinast að því að lengja líf þess verði þeim þegar hætt. Dæmi um slíkar aðgerðir eru til dæmis að nota stuðning við öndun, endurlífgun með hjartahnoði og/eða lyfjum, blóðhreinsun með vélum, gjörgæslumeðferð og næring með slöngum. 

Við hjá Lífsvirðingu teljum mikilvægt að endurvekja Lífsviljaskrána og auka þar með þátttöku sjúklinga í meðferðarvali og rétt þeirra til sjálfræðis. Lífsviljaskrá er mikilvæg leið til að fá fram, varðveita og virða óskir sjúklinga við lífslok og koma í veg fyrir meðferð sem gengur gegn vilja og lífsskoðun þeirra. Samhliða endurvakningu lífsviljaskrár væri gagnlegt að efla fræðslu og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks og koma af stað víðtækri umræðu í samfélaginu um meðferð við lok lífs. 

Hægt væri að gera Lífsviljaskrána rafræna (í gegnum Heilsuveruna) og tengja hana inn í Sögu, rafrænu sjúkraskrána sem allar stofnanir hafa aðgang að. Þannig væri hún aðgengileg þeim heilbrigðisstarfsmanni sem sæi um sjúklinginn hverju sinni.  

Það er sýn þeirra sem standa að Lífsvirðingu að í framtíðinni yrði einnig hægt að taka fram óskir um dánaraðstoð við tilteknar vel skilgreindar aðstæður, eftir að löggjöf þar að lútandi hefur tekið gildi hér á landi.