Hvaða aðferð við dánaraðstoð hentar okkur Íslendingum?

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu, sem var framkvæmd í september 2022, eru 76,2% Íslendinga hlynntir dánaraðstoð. 6,6% svara því til að þau séu „Mjög andvíg“ eða „Fremur andvíg“ og 17,2% svara „Í meðallagi“. 

Hvaða aðferð ætti að nota?

Í könnuninni var m.a. spurt hvaða aðferð Íslendingar ættu að nota ef dánaraðstoð yrði leyfð en í heiminum er notast við þrjár meginaðferðir. Spurningin hljóðar svo:

Hverja af eftirtöldum aðferðum við dánaraðstoð telur þú að Íslendingar ættu að taka upp ef dánaraðstoð yrði lögleyfð?

Svarmöguleikarnir voru fjórir, sjá meðfylgjandi töflu.

Fyrsti valmöguleikinn, og sá sem flestir kjósa eða 48,4%, er að læknir gefi einstaklingi lyf í æð. Þessi aðferð er oft nefnd „hollenska leiðin“ en á ensku heitir hún euthanasia og er notuð í Hollandi, Belgíu,  Lúxemborg og Kanada. Í Hollandi og Belgíu var þessi aðferð leyfð með lögum árið 2002, í Lúxemborg árið 2009 og í Kanada 2016. Í Hollandi var dánaraðstoð 4,5% af öllum dauðsföllum árið 2021 en 2,4% í Belgíu árið 2019. Í Kanada var dánaraðstoð 3,3% af öllum andlátum árið 2021. 

Skilyrðin eru mismunandi milli landa en í Hollandi eru þau að a) læknirinn sé sannfærður um að ósk sjúklingsins sé sjálfviljug og vel ígrunduð og b) þjáning hans viðvarandi (ómeðhöndlanleg) og óbærileg. Læknirinn á að c) hafa upplýst sjúklinginn um ástand hans og horfur, og d) sjúklingurinn þarf að vera sannfærður um að engin önnur skynsamleg úrræði séu í boði. Læknirinn á að hafa ráðfært sig við a.m.k. einn annan, óháðan lækni, sem hefur vitjað sjúklingsins og veitt skriflegt álit sitt á atriði a)-d). Læknirinn þarf að gæta læknisfræðilegrar vandvirkni við að binda enda á líf sjúklingsins. Honum er skylt að skila til þar til gerðrar nefndar sem fer yfir hvort farið hafi verið að lögum í einu og öllu.

Næstflestir eða 19,6% velja aðferðina sem er oft kennd við Sviss en þá innbyrðir einstaklingur sjálfur lyf hjá samtökum eins og Dignitas, Exit eða Pegasos, sem útvega þau í gegnum lækni. Aðferðin er í boði bæði fyrir innlenda sem og erlenda ríkisborgara sem koma til Sviss í þeim eina tilgangi að binda enda á þjáningar sínar. Fyrir ríkisborgara Sviss er dánaraðstoð þjónusta sem veitt er á sjúkrahúsum sem hluti af líknarmeðferð. Svissnesk hegningarlög heimila einstaklingum að að stoða aðra við að taka eigið líf svo lengi sem ekki sé um að ræða eigingjarna ástæðu, eins og til dæmis peningalega. Það var árið 1942 sem dánaraðstoð var lögleyfð í Sviss. Þessi aðferð er einnig í boði í Benelúx löndunum þó að flestir velji að læknir gefi þeim lyf í æð. Í um 1,5% af öllum dauðsföllum í Sviss árlega er um að ræða dánaraðstoð. 

Þriðji valkosturinn fær atkvæði 6,7% svarenda en í honum felst að læknir skrifar upp á lyf sem einstaklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. Hér er um að ræða aðferð sem notuð er í níu ríkjum Bandaríkjanna og er oft kennd við Oregon en það ríki heimilaði dánaraðstoð þegar árið 1997 samkvæmt Oregon Death with Dignity Act. Skilyrði er m.a. að einstaklingurinn sé með banvænan sjúkdóm sem mun draga hann til dauða innan sex mánaða. Svipuð löggjöf er í öðrum fylkjum Bandaríkjanna og í Ástralíu.

Um það bil þriðji hver einstaklingur sem fær lyfin velur að taka þau ekki. Árið 2021 fengu sem dæmi 383 einstaklingar lyfjaávísun í Oregon á meðan aðeins 238 dóu eftir að hafa tekið inn lyfin, þar af voru 20 sem höfðu sótt lyfið áður. Síðan lögin tóku gildi 1997 hafa 3.280 fengið lyfjaávísun og 2.159 hafa dáið eftir að innbyrða lyfin. Vandlega er fylgst með lyfjum frá þeim degi sem þeim er ávísað og þangað til sá eða sú sem fékk lyfjaávísunina deyr. Læknum er skylt að tilkynna alla lyfseðla fyrir banvænum lyfjum til heilbrigðisdeildar fylkisins og það sama gildir um lyfjafræðinga. Hverjum þeim sem kýs að neyta ekki lyfjanna er gert að farga þeim á löglegan hátt. Engin tilvik hafa verið tilkynnt í Oregon um misnotkun á bænvænum lyfjum á þeim tíma sem lögin hafa verið í gildi.

Fjórðungur kaus að svara ekki þessari spurningu.

Val lækna og hjúkrunarfræðinga 

Í B.S. ritgerð sinni árið 2021 gerði Brynhildar K. Ásgeirsdóttir viðhorfskönnun meðal lækna og hjúkrunarfræðinga á aðgerðar- og meðferðarsviðum Landspítalans. Alls velja 13% lækna og hjúkrunarfræðinga að læknir komi beint að og framkvæmi deyðinguna sjálfur, 21% vill að læknir gefi lyfseðil fyrir banvænni lyfjablöndu sem sjúklingur tekur sjálfur og 47% velja að læknir geti hvort sem er framkvæmt deyðinguna eða gefið út lyfseðilinn. 22% svarenda kjósa svarmöguleikann „Annað“.

Hluti af umræðunni sem þarf að eiga sér stað á Íslandi er að ákveða hvaða leið hentar okkur Íslendingum best. Eflaust eru skiptar skoðanir á því og því mikilvægt að umræðan fái að þroskast og að við tökum öllum mögulegum leiðum til skoðunar. 

Greinarhöfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.