Dánaraðstoð þegar sjúkdómurinn verður óbærilegur

Ástæður þess að alvarlega veikt fólk tekur þá ákvörðun að biðja um dánaraðstoð eru umhugsunarefni fyrir alla sem hafa skoðun á lögleiðingu hennar. En dánaraðstoð er sá verknaður að binda enda á líf einstaklings af ásetningi og að ósk hans, eftir ströngum skilyrðum.

Fólk segist upplifa óbærilegar þjáningar, mikil líkamleg óþægindi, vitræna skerðingu og skort á lífsgæðum. Það segist ekki geta haldið mannlegri reisn, upplifa ótta við að missa stjórn og vera algjörlega háð öðrum. Í okkar félagi, Lífsvirðingu, höfum við margoft fundið að þeir sem hafa horft upp á ástvini deyja sársaukafullum dauða eru sérstaklega sannfærðir um mikilvægi þess að leyfa fólki að deyja á eigin forsendum. Einnig hafa borist okkur sögur um fólk sem hefur gripið til þeirra örþrifaráða að stytta eigið líf þegar dánaraðstoð hefur ekki verið löglegur valkostur. 

Líknarmeðferð nægir oft ekki 

Ein rökin gegn dánaraðstoð hafa verið þau að með góðri líknarmeðferð sé hægt að stjórna flestum einkennum. Engin takmörk séu fyrir því að hægt er að veita góða og fullnægjandi líknarmeðferð og það þurfi því enginn að óttast að líða þjáningar á dánarbeðinu. Því miður er óskhyggja að halda að líknarmeðferð geti afmáð alla þjáningu. Það má heldur ekki gleyma því að verkjastillandi lyf hafa oft ýmsar miður skemmtilegar aukaverkanir eins og ógleði og mók. Eða eins og einn einstaklingur sem sendi Lífsvirðingu reynslusögu orðaði það: „Stundum er ég með svo mikla verki að ég vil bara leggjast í rúmið og fara að sofa en ég get ekki sofið vegna þess að verkurinn heldur mér vakandi (…). Ég er sorgmædd og reið yfir því að á 21. öld skuli vera hægt að taka ljósmyndir og jarðvegssýni á Mars en  ekki vera hægt að gefa mér eitthvað sem drepur sársaukann og heldur mér á sama tíma vakandi og skýrri í kollinum þannig að ég geti verið virkur þátttakandi í samfélaginu.“

Hugarró og huggun að geta fengið dánaraðstoð

Fyrir marga veitir sú vitneskja að geta stjórnað eigin lífslokum ákveðna hugarró og huggun. Að hafa dánaraðstoð sem valkost bætir líðan og lífsgæði og gerir fólki kleift að einbeita sér að því að lifa lífinu. Í Oregon fylki, þar sem lög um dánaraðstoð tóku gildi árið 1997, hafa rannsóknir sýnt að aðeins um tveir þriðju þeirra sem fá beiðni um dánaraðstoð samþykkta ákveða að nota lyfin. Það sama á við um Dignitas í Sviss en aðeins minnihluti þeirra sem geta fengið aðstoð við að binda enda á eigið líf nýtir sér þennan valkost. Bara vitneskjan að geta fengið dánaraðstoð ef fólk treystir sér ekki lengur til að lifa veitir vellíðan og huggun. Fjöldi fólks lítur á þetta sem tryggingu gegn hræðilegum dauðdaga eða leið út þegar það þarfnast þess, eitthvað sem hægt er að grípa til þegar sjúkdómurinn verður óbærilegur. 

Persónuleg ákvörðun hvers og eins

Að leyfa einstaklingum með banvænan sjúkdóm að binda enda á þjáningar sínar er mannúðlegur valkostur og ákvörðun sem enginn annar getur tekið en þeir sjálfir. Því þegar allt kemur til alls er það hvernig við ákveðum að lifa og deyja persónuleg ákvörðun hvers og eins. Í sjálfsákvörðunarrétti einstaklings hlýtur að felast réttur til að taka ákvarðanir um það hvenær og hvernig hann kjósi að deyja. Ættum við ekki að hafa eitthvað að segja um eigin dauðdaga? 

Greinarhöfundar er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist 15. mars 2023 á heimildin.is.