Almenningur vill að dánaraðstoð verði löglegur valkostur á Íslandi

Síðastliðið vor fól Alþingi heilbrigðisráðherra að láta framkvæma skoðanakönnun um viðhorf heilbrigðisstarfsmanna, sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og voru niðurstöðurnar birtar á vef Alþingis 8. júní sl.

Spurt var annars vegar um almenna afstöðu þátttakenda til dánaraðstoðar með svohljóðandi spurningu:

Á heildina litið, hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi? þar sem svarmöguleikarnir voru:

    • Alfarið hlynnt(ur)
    • Mjög hlynnt(ur)
    • Frekar hlynnt(ur)
    • Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)
    • Frekar andvíg(ur)
    • Mjög andvíg(ur)
    • Alfarið andvíg(ur)

Hins vegar var spurt um viðhorf þátttakenda til mismunandi leiða við framkvæmd dánaraðstoðar en spurningin var svohljóðandi:

Ef dánaraðstoð yrði leyfð á Íslandi, hver eftirtalinna leiða við dánaraðstoð myndi hugnast þér best?

    • Læknir gefur sjúklingi lyf í æð
    • Sjúklingur innbyrðir sjálfur lyf sem læknir útvegar
    • Læknir skrifar upp á lyf sem sjúklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur
    • Mér hugnast engin ofantalinna leiða

Í þessari grein verður einblínt á afstöðu almennings til lögleiðingar dánaraðstoðar á Íslandi. Stærð úrtaks könnunarinnar var 1.694 einstaklingar af landinu öllu, 18 ára og eldri, og voru þeir valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 862 og svarhlutfall því 50,9%. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 19. apríl til 2. maí 2023.

Mikill stuðningur frá árinu 2015

Meirihluti svarenda eða 75,6% segist alfarið, mjög eða frekar hlynntur því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi. Séu þessar niðurstöður bornar saman við eldri kannanir má sjá svipaðar tölur. Í könnun um dánaraðstoð sem Siðmennt lét framkvæma árið 2015 var stuðningurinn 74.5%. Könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu í nóvember 2019 sýndi að stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð var 77.7% og þegar könnunin var endurtekin árið 2022 kom svipaður stuðningur í ljós eða 76,2%. Samanburðartölurnar má sjá í grafinu hér fyrir neðan.

Stuðningur almennings við dánaraðstoð er svipaður í öðrum Evrópulöndum. Sem dæmi þá styðja 84% Breta dánaraðstoð á meðan hlutfallið er 75,6% í Frakklandi, 70% í Noregi og 85% í Finnlandi, til að nefna bara nokkur Evrópulönd. Þessa má geta að dánaraðstoð hefur þegar verið leyfð í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Portúgal og Spáni. Þar að auki er verið að þróa löggjöf í Bretlandi, Írlandi og Ítalíu.

Viðhorf almennings til mismunandi leiða við dánaraðstoð

Þegar spurt var hvaða leið hugnaðist svarendum best ef dánaraðstoð yrði leyfð á Íslandi svaraði meirihluti eða 53,1% að læknir gefi sjúklingi lyf í æð, 26,1% að sjúklingur innbyrði sjálfur lyf sem læknir útvegar og 9,1% að læknir skrifi upp á lyf sem sjúklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. 11,7% svöruðu að þeim hugnaðist engin ofangreindra leiða. Aðrar kannanir hafa sýnt svipaðar niðurstöður. Í grafinu hér fyrir neðan má sjá niðurstöður kannana sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu 2019 og 2022 en spurningarnar um mismunandi leiðir við dánaraðstoð voru eins orðaðar og í könnun heilbrigðisráðherra.

Hvenær tekur Alþingi dánaraðstoð til umræðu?

Þó að þessi af­ger­andi stuðning­ur Íslend­inga við dán­araðstoð sé ánægju­leg­ur má velta fyr­ir sér hvenær Alþingi muni taka til­lit til vilja þjóðarinnar. Hann ætti að endurspeglast á Alþingi þar sem kjörnir fulltrúar hennar sitja. Hvenær ætla Alþingismenn að blanda sér fyrir alvöru í umræðuna um dánaraðstoð?

Greinarhöfundar er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist á heimildin 12. nóvember 2023.