Læknar og hjúkrunarfræðingar styðja dánaraðstoð

Grundvallarbreyting í afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til dánaraðstoðar. Við kynningu á B.S. ritgerð Brynhildar K. Ásgeirsdóttur við Háskóla Íslands á málþingi sem Siðfræðistofnun HÍ hélt föstudaginn 6. maí sl. kom fram grundvallarbreyting á afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til dánaraðstoðar.

Um framkvæmd viðhorfskönnunar segir:

Svarhlutfall var 38% meðal lækna og 20% meðal hjúkrunarfræðinga, 27% í heild. Svarhlutfall var því minna en í fyrri könnunum, en árið 2010 var svarhlutfallið um 49% og 55% árið 1995. Til samanburðar bárust 278 svör í könnuninni árið 2010 og 234 árið 1995. Fjöldi þeirra sem svöruðu var því sambærilegur og í fyrri könnunum.

Afstaðan til dánaraðstoðar

Hér eru svör við nokkrum spurningum úr könnuninni sem framkvæmd var meðal lækna og hjúkrunarfræðinga á aðgerðar- og meðferðarsviðum Landspítalans. Með spurningunni um dánaraðstoð voru fjórar undirspurningar sem gefa dýpri sýn á svörun. Aðalspurningin er þessi:

Hver er afstaða þín til dánaraðstoðar/líknardráps?

Rúm 42% lækna og 52% hjúkrunarfræðinga hafa jákvæða afstöðu til dánaraðstoðar. Stuðningurinn er meiri meðal almennra lækna en sérfræðinga þó ekki sé um að ræða marktækan mun. Aðeins 18% eru ekki fylgjandi dánaraðstoð af neinu tagi.

Ein undirspurningin er hvort viðkomandi sé fylgjandi að „löggjafinn og heilbrigðisyfirvöld opni lagalega glufu fyrir líknardráp/dánaraðstoð deyjandi sjúklinga sem heilbrigðisstarfsfólk geti eftir faglegri dómgreind sinni og samráði veitt hljóðlega í undantekningatilvikum mannúðar.

Samtals 15% svarenda styðja slíka löggjöf sem má túlka sem jákvæða fyrir möguleika á dánaraðstoð. Samtals er því stuðningur beggja starfshópanna yfir 50%.

Þegar svör eru borin saman milli áratuga má sjá að frá árinu 2010 hefur stuðningur lækna aukist úr 18% í 54% á meðan stuðningur hjúkrunarfræðinga hefur farið úr 20% í 71%. Hefur því stuðningur lækna þrefaldast frá 2010 og stuðningur hjúkrunarfræðinga hefur aukist enn meira.

Hér er því um að ræða grundvallarbreytingu á afstöðu beggja starfshópa!

Rökin gegn dánaraðstoð

Þegar spurt var um rökin gegn dánaraðstoð merktu 70% (af þeim 18% sem voru andvígir) við valmöguleikann:

deyjandi fólk í tilvistarangist á að fá bestu líknandi meðferð sem völ er á og þannig getur heilbrigðisstarfsfólk hjálpað því best.

Þá segja 60% að …

það samræmist ekki markmiðum hjúkrunar eða læknisstarfsins að deyða fólk.

auk þess sem 56% svara …

… hætt er við að fólk finni sig knúið til að biðja um líknardráp/dánaraðstoð sökum erfiðra aðstæðna eða þrýstings annarra/samfélagsins.

Þá eru 42% sammála um að …

það getur aldrei siðferðilega orðið réttur sjúklings (og þá skylda læknis) að fá aðstoð við að vera deyddur áður en náttúrulegan dauðdaga ber að garði.

Þá telja 40% að …

í öllum kerfum verða mistök. Dauðinn er endanlegur og því er ekki hægt að snúa mögulega ranglega ákveðnu líknardrápi við. Það er of dýrkeypt.

Aðrar ástæður sem voru nefndar voru að helgi lífsins væri óvírætt og enginn skyldi stytta líf manneskju við nokkrar aðstæður (9%).

Rökin fyrir dánaraðstoð

Af þeim sjö valkostum sem svarendur sem fylgjandi voru dánaraðstoð gátu valið úr stóðu tveir upp úr. Þann fyrri studdu 58% (af þeim 47% sem voru fylgjandi dánaraðstoð), sem sagði að …

deyjandi fólk í tilvistarangist og óbærilegri líðan á að geta valið á milli líknandi meðferðar eða þess að fá að biðja um dánaraðstoð innan ramma öruggs fyrirkomulags.

Við þann seinni eru það 56% sem telja að …

sjálfræði yfir eigin lífi allt til hins síðasta er eitt mikilvægasta siðferðisverðmæti hverrar persónu. Beiðni um dánaraðstoð er óskin um hjálp við að deyja á sínum forsendum, með reisn og á sinni stundu.

Þessu til viðbótar telja 44% að …

lífið er hin hinstu verðmæti fólks, en í ljósi þess að vera deyjandi og þjást óbærilega getur dánaraðstoð verið hið hinsta góða sem beiðendur þess óska eftir af heilbrigðiskerfinu.

37% velja valkostinn …

að deyða manneskju er ekki markmið heilbrigðisþjónustu, lækna eða hjúkrunarfræðinga, en dánaraðstoð er að beiðni hins deyjandi og aldrei ráðlögð af heilbrigðisstarfsfólki. Í augum þess sem biður er það velgjörð, ekki misgjörð.

Heilsufarsleg staða sjúklings, val og framkvæmd

Næsta spurning varðaði heilsufarslega stöðu einstaklings sem biður um dánaraðstoð. 51% fylgjenda dánaraðstoðar eru á því að aðeins geti verið um deyjandi sjúklinga að ræða á meðan 54% telja að auk deyjandi sjúklinga eigi langveikt fólk í óbærilegri tilvistarangist að geta fengið dánaraðstoð.

Þegar spurt var um val, réttindi eða skyldu kom í ljós að 80% telja að sjúklingur eigi rétt til að biðja um dánaraðstoð en ekki beinan rétt til framkvæmdar verksins (og því ekki skylda læknis / heilbrigðiskerfisins). Dánaraðstoð eigi að vera valkvætt verk. Aftur á móti telja 12% að sjúklingur eigi rétt á dánaraðstoð og þar af leiðandi að læknir/heilbrigðiskerfið hafi samsvarandi skyldu til verksins.

Síðasta undirspurningin fjallaði um framkvæmd og völdu 13.5% svarmöguleikann að læknir komi beint að og framkvæmi deyðinguna sjálfur (banvænt lyf gefið í æð), sem er aðferðin sem er m.a. notuð í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg. 20% vilja að læknir gefi lyfseðil fyrir banvænni lyfjablöndu sem sjúklingur tekur sjálfur en þessi aðferð er m.a notuð í Sviss.

45% völdu svarmöguleikann að læknir geti hvort sem er framkvæmt deyðinguna eða gefið út lyfseðilinn. Síðarnefnda aðferðin nefnist oft „Oregon“ aðferðin og er notuð í þeim ríkjum í Bandaríkjunum sem lögleitt hafa dánaraðstoð.

Niðurstaðan er því að helsta ástæða fyrir stuðningi lækna og hjúkrunarfræðinga er sjálfsákvörðunarréttur einstaklingsins. Að maður ráði sjálfur yfir eigin lífi og dauða.

Afstaða þeirra óvissu

Af þeim sem eru óviss eða hafa ekki gert upp hug sinn (19% af heildinni) svara 83% að málið sé mjög flókið siðferðilega og að þeir fresti dómi um það í bili. 37% merkja við að skort hafi umræðu meðal íslensks heilbrigðisstarfsfólks og/eða heilbrigðisyfirvalda.

Alþingi hvatt til að samþykkja að láta fara fram allsherjar könnun á afstöðu heilbrigðisstarfsmanna

Á Alþingi liggur fyrir þingsályktunartillaga um könnun meðal heilbrigðisstarfsmanna. Sambærilegar kannanir hafa farið fram árin 1995 og 2010 og því kominn tími til að gera aftur könnun. Lífsvirðing hvetur þingmenn eindregið að samþykkja hana til að stuðla að efnismeiri og betri umræðu um dánaraðstoð. Þingsályktunin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsfólks um afstöðu þess til dánaraðstoðar. Markmiðið með gerð skoðanakönnunarinnar verði að fá sem gleggsta mynd af afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til álitaefnisins sem frekar hefur komið til opinberrar umræðu eftir að skýrsla heilbrigðisráðherra um dánaraðstoð var lögð fyrir Alþingi í september 2020. Skoðanakönnuninni er ætlað að kanna á hlutlausan og vandaðan hátt hvort og þá hvernig afstaða heilbrigðisstarfsfólks hefur breyst svo að unnt sé að vinna málið áfram. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður skoðanakönnunarinnar á haustþingi 2022.

Lífsvirðing hvetur Læknafélag Íslands til að breyta afstöðu sinni

Eins og niðurstöðurnar bera með sér hefur orðið grundvallarbreyting á afstöðu lækna og hjúkrunarfræðinga til dánaraðstoðar. Læknafélag Íslands (LÍ) hefur frá upphafi haft mjög neikvæða afstöðu til dánaraðstoðar og lagst alfarið gegn henni. LÍ hefur meira að segja dregið lappirnar í umræðunni um dánaraðstoð og frekar latt til hennar en hvatt eins og kemur fram í áliti félagsins til þingsályktunarinnar.

Læknafélög um heim allan hafa verið mikill andstæðingur dánaraðstoðar að undanskildum félögum lækna í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg þar sem dánaraðstoð er heimil. En síðustu fimm til tíu ár hefur átt sér stað sama grundvallarbreyting á afstöðu lækna til dánaraðstoðar og kemur fram í viðhorfskönnun Brynhildar K. Ásgeirsdóttur. Mörg félög lækna, þar á meðal í Bretlandi, hafa breytt andstöðu sinni í hlutlausa og nokkur félög styðja hana nú.

Að ofan sögðu hvetur stjórn Lífsvirðingar Læknafélag Íslands til að endurskoða afstöðu sína og lýsa yfir stuðningi við dánaraðstoð eða að minnsta kosti láta af andstöðu sinni og virða það meirihlutasjónarmið lækna sem kemur fram í viðhorfskönnuninni. Með því verður hægt að færa umræðuna á hærra stig.

Greinarhöfundar eru stjórnarmenn í Lífsvirðingu. Birtist í Kjarnanum 20. maí 2022.