„Þessi fræga dánaraðstoð...“

Á Spotify má finna prýðileg viðtöl um dauðann sem Matthías Tryggvi Haraldsson, spyrill þáttanna og leikskáld, gerði en verkefnið var rannsóknarverkefni fyrir Borgarleikhúsið þar sem Matthías Tryggvi starfar. Í fjórða þætti[1] ræðir hann við yfirlækni líknardeildar Landspítalans, Valgerði Sigurðardóttur, um starf líknardeildar og dauðann.

Þegar líður á viðtalið berst talið að dánaraðstoð og þar koma fram mjög sérstakar persónulegar skoðanir yfirlæknisins. Í þessari grein geri ég alvarlegar athugasemdir við orðaval og fullyrðingar hennar.

„Talsmenn þess að maður sé tekinn af lífi...“

Yfirlæknir líknardeildar notar ítrekað orðið „líknardráp“, sem allir eru hættir að nota nema hörðustu andstæðingar dánaraðstoðar. Í orðinu fara saman „líkn“, sem hefur frekar jákvæða skírskotun, og „dráp“, sem er óneitanlega neikvætt hlaðið. Orðið dánaraðstoð hefur aftur á móti unnið sér sess í umræðunni og er m.a. notað í tveimur þingsályktunartillögum og skýrslu heilbrigðisráðherra sem var birt síðastliðið haust.

Valgerður talar af lítilli virðingu og þekkingu um dánaraðstoð þegar hún segir að það sé hroki gagnvart dauðanum og lífinu sem fái menn til að óska dauðans. Hún notar orðalagið að „maður sé tekinn af lífi og bætir síðan við „...þessi fræga dánaraðstoð“. Þessi fullyrðing yfirlæknis líknardeildar Landspítalans að fólk sé tekið af lífi þegar það fær dánaraðstoð er eins langt frá raunveruleikanum og hægt er að hugsa sér. Þegar dánaraðstoð á í hlut er ávallt gengið úr skugga um að um sé að ræða sjálfviljuga og vel ígrundaða ósk einstaklingsins og fjarri öllu lagi að um sé að ræða líflátsverk eða aftöku sjúklings af hálfu læknis. Frekar er um að ræða kærleiksverk enda er um að ræða dýpstu ósk einstaklingsins að fá að deyja með sæmd.

„Allt þarf að vera fullkomið“

Valgerður heldur því fram í viðtalinu að þeir sem biðji um dánaraðstoð vilji hafa stjórn á öllu í sínu lífi – allt eigi að vera fullkomið – og þeir geti ekki hugsað sér að hafa ekki síðasta orðið. Hún fullyrðir að þetta séu frekar karlar en konur, oft á miðjum aldri, sem geti síður hugsað sér að missa stjórnartaumana og sætti sig síður við hlutskipti sjúklingsins. Geti ekki hugsað sér að vera háðir öðrum eða skammist sín jafnvel fyrir veikindi sín. Þessar fullyrðingar Valgerðar eiga engan veginn við rök að styðjast og lýsa frekar persónulegum skoðunum hennar en staðreyndum. Í Belgíu voru konur sem dæmi í meirihluta 2018 og 2019 eða 52,8% þeirra sem fengu dánaraðstoð[2] og 50,04% árið 2020[3]. Í sömu skýrslum má sjá að meirihluti þeirra sem fékk dánaraðstoð í Belgíu 2018-2020 var ekki á miðjum aldri heldur á aldrinum 70-89 ára og það sama er upp á teningnum í Hollandi[4]. Kynjahlutföllin voru frekar jöfn í Hollandi eða 51% karlar á móti 49% konur árið 2019 þannig að ekki er um að ræða marktækan mun.

„Frískari og lengra frá dauðanum“

Valgerður fullyrðir einnig að þeir sem tali mest fyrir dánaraðstoð séu ekki bara einstaklingar sem glíma við óbærilega þjáningu frá degi til dags heldur „aðeins frískari og lengra frá dauðanum“. Hún vitnar í skýrslur sér til stuðnings, m.a. frá Benelúx-löndunum, sem eiga að sýna að það sé ekki fyrst og fremst fólk sem glímir við óbærileg einkenni sem óskar eftir dánaraðstoð. Þegar skýrslur frá þessum löndum eru skoðaðar kemur í ljós að þessar fullyrðingar yfirlæknis líknardeildar eiga ekki heldur við rök að styðjast. Mikill meirihluti þeirra sem fengu dánaraðstoð í Hollandi árið 2019 voru með ólæknandi krabbamein, taugasjúkdóma, hjarta- og æðasjúkdóma, lungnasjúkdóma eða fjölsjúkdóma[5]. Í Belgíu var aðeins 0,6% þeirra sem fengu dánaraðstoð árið 2019 ekki með ólæknandi sjúkdóm[6].

Meirihluti þeirra sem fá dánaraðstoð er langt leiddur af ólæknandi sjúkdómum og upplifir það versta sem lífið hefur upp á að bjóða. Dánaraðstoð gefur þeim tækifæri til að endurheimta mannlega reisn. Óbærileg þjáning snýst nefnilega ekki bara um líkamlega verki heldur er oft um að ræða tilvistarlega eða andlega þjáningu vegna skertra eða óásættanlegra lífsgæða. Þær meginástæður sem fólk sem fékk dánaraðstoð í Oregon árið 2019 gaf upp voru 1) að vera minna fær um að taka þátt í athöfnum sem gera lífið skemmtilegt (90,4%), 2) að tapa sjálfræði (86,7%) og að tapa reisn (72,3%). Í Kanada er læknum gert að greina frá því hvernig þeir sem biðja um dánaraðstoð lýsa þjáningum sínum. Algengasta ástæðan sem þeir nefna er að geta ekki lengur tekið þátt í þýðingarmiklum athöfnum (82,1%) og að geta ekki framkvæmt athafnir daglegs lífs (78,1%). Aðrar ástæður eru ófullnægjandi stjórn á öðrum einkennum en sársauka eða áhyggjur af því (56,4%), ófullnægjandi stjórn á sársauka eða áhyggjur af því (53,9%) og að missa reisn (53.3%)[7].

„Það er ekkert bann við sjálfsvíg“

Valgerður segist ekki átta sig á því hvers vegna fólk sem er sjálfbjarga og ekki með mikil sjúkdómseinkenni þurfi að fá aðra manneskju til þess að deyða sig og heldur áfram: „Ég meina, það er ekkert bann við sjálfsvígi, ha, það er ekkert alveg tabú í landinu, þú færð greftrun, ha, þú ert ekki grafinn utangarðs eins og áður.“ Þessi orð yfirlæknis líknardeildar eru auðvitað fyrir neðan allar hellur. Það er hreint út sagt óskiljanlegt og ekki yfirlækni líknardeildar Landspítalans sæmandi að leggja það beinlínis til við fólk að það fremji sjálfsvíg ef það treystir sér ekki til að lifa lengur.

Sjaldan beðið um stóru sprautuna

Valgerður segir að hún hafi í daglegri vinnu mjög sjaldan fengið „fyrirspurn um stóru sprautuna“. Það ætti ekki að koma á óvart að sjúklingar í íslensku heilbrigðiskerfi hafi ekki óskað eftir því að læknir bindi endi á líf þeirra enda er slíkt bannað með lögum. Ef þannig ósk hefur komið fram þá hefur henni verið sinnt án þess það sé gert opinbert, enda lögbrot miðað við núverandi lög.

Bið um faglega og málefnalega umræðu

Undirrituð er fyllilega meðvituð um að dánaraðstoð er viðkvæmt mál sem á sér margar hliðar. Þörf er á faglegri, málefnilegri og yfirvegaðri umræðu heilbrigðisstarfsmanna, stjórnmálamanna og samfélagsins alls um dánaraðstoð. Viðtalið við Valgerði Sigurðardóttir er því miður ekki liður í því.

Greinarhöfundur er Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar. Birtist 

 

[1] Allir deyja - Fjórði þáttur | RÚV Útvarp (ruv.is). Viðtalið hefst þegar 20 mínútur eru liðnar af þættinum.

[2] https://overlegorganen.gezondheid.belgie.be/sites/default/files/documents/9_euthanasie-verslag_2018-2019-nl.pdf

[3] fcee-cijfers-2020_persbericht.pdf (belgie.be)

[4] Paper-on-International-Experiences-of-Assisted-Dying-January-2021.pdf (hospicefoundation.ie)

[5] Paper-on-International-Experiences-of-Assisted-Dying-January-2021.pdf (hospicefoundation.ie)

[6] https://overlegorganen.gezondheid.belgie.be/sites/default/files/documents/9_euthanasie-verslag_2018-2019-nl.pdf

[7] Paper-on-International-Experiences-of-Assisted-Dying-January-2021.pdf (hospicefoundation.ie)