Okkar val að ákveða hvernig við yfirgefum þessa jarðvist

Á Spotify má finna viðtöl um dauðann sem Matthías Tryggvi Haraldsson, spyrill þáttanna og leikskáld, gerði en um var að ræða rannsóknarverkefni fyrir Borgarleikhúsið þar sem Matthías Tryggvi starfar. Viðtölin, sem eru í fjórum þáttum, voru birt á Rás 1 á tímabilinu 30. mars til 5. apríl 2021.

Í fjórða þætti ræðir Matthías við yfirlækni líknardeildar Landspítalans, Valgerði Sigurðardóttur, um starfsemi líknardeildar og dauðann.

Í viðtalinu heldur yfirlæknir líknardeildar m.a. fram að þeir sem biðji um dánaraðstoð séu frekar karlar en konur, oft á miðjum aldri, sem geti síður hugsað sér að missa stjórnartaumana og sætti sig síður við hlutskipti sjúklingsins. Þeir geti ekki hugsað sér að vera háðir öðrum eða skammist sín jafnvel fyrir veikindi sín. Þessar fullyrðingar eiga ekki við rök að styðjast og lýsa frekar persónulegum skoðunum yfirlæknisins en staðreyndum, líkt og Ingrid Kuhlman, formaður Lífsvirðingar, fór yfir í góðri grein sem birtist í Kjarnanum 21. apríl sl. undir heitinu „Þessi fræga dánaraðstoð...“. Þar að auki mætti velta fyrir sér, ef um væri að ræða karlmenn í ákveðnum aldurshópi, hvert væri vandamálið við það? Eiga ekki karlmenn á miðjum aldri jafn mikinn rétt á að biðja um dánaraðstoð af ofangreindum ástæðum en aðrir?

Meðvituð og yfirveguð ákvörðun

Ég þekki persónulega þrjá einstaklinga sem tóku þá ákvörðun að biðja um dánaraðstoð, eiginmann minn (60 ára), föður minn (94 ára) og vinkonu á 65 ára aldri. Þessir einstaklingar voru mismunandi persónuleikar, höfðu ólíkar lífssögur og komu úr ólíku umhverfi. Öll tóku þau þessa ákvörðun af auðmýkt, sjálfviljug og að vel ígrunduðu máli. Þau reyndu að gefa lífinu og veikindum sínum tækifæri og töluðu opinskátt við fjölskyldu sína. Þegar þau töldu að lífsgæðin sem biðu þeirra síðustu mánuðina væru óásættanleg völdu þau að kveðja með meðvitund frekar en að láta lífið fjara út hægt og án meðvitundar eins og gerist þegar lífslokameðferð er veitt. Nýlega horfði ég svo upp á tvær konur deyja í morfínvímu. Samanburðurinn á þessum tveimur leiðum var að mínu mati sláandi.

Þetta snýst um mannúðlegt val

Ég veit hvor leiðin mér finnst betri persónulega en ég hef engan rétt á að fyrirlíta val annara. Val annarra er mér óviðkomandi, ég hef engan rétt á að dæma fólk sem velur aðra leið en ég myndi sjálf kjósa. Það er grundvallarréttur og hluti mannréttinda að fá að ráða hvenær og hvernig við yfirgefum þessa jarðvist. Ef fullorðinn og sjálfráða einstaklingur ræður ekki sjálfur eigin dauðdaga, hver á þá að ráða? Stjórnvöld? Trúarleg yfirvöld? Aðstandendur? Heilbrigðisstarfsfólk? Með því að leyfa dánaraðstoð tökum við ekkert frá þeim sem eru andvíg henni. Þeir sem setja sig upp á móti dánaraðstoð taka hins vegar frá okkur réttinn á að fá að deyja á þann hátt sem við viljum og í því umhverfi sem við viljum. Dánaraðstoð felur í sér virðingu og umhyggju fyrir manneskjunni, velferð hennar, vali og sjálfræði.

Greinarhöfundur er Sylviane Lecoultre, er stjórnarmaður í Lífsvirðingu. Hún hefur frá tvítugsaldri starfað við ýmsa sjúkrahúsþjónustu. Hún er eiginkona, dóttir og vinkona þriggja einstaklinga sem fengu dánaraðstoð. Hún er einnig dóttir og tengdadóttir tveggja kvenna sem dóu í morfínmóki á sjúkrahúsi eftir að hafa glímt við erfið veikindi.