Höfum við rétt á að velja hvenær og hvernig við viljum deyja?

Við vitum öll að við munum deyja. Það er óumflýjanlegt. Við vitum hinsvegar ekki hvenær dauðann muni bera að garði eða hvort við munum fá mikinn fyrirvara. Við vitum ekki hvort dauðinn komi of snemma í okkar lífi eða hvort hann muni fylgja aldri.

Almenna hugmyndin um dauðann er að hann komi til vegna slyss eða aldurs. En það er því miður ekki svona einfalt. Á hverjum degi eru einstaklingar sem fá þær fréttir frá lækninum að þeir séu með ólæknandi sjúkdóm, sem muni leiða þá smám saman til dauða.

Við eigum okkar líf og dauðinn er endapunkturinn. Spurning mín er því: Höfum við rétt á að velja hvernig og hvenær við deyjum? Að mínu mati ætti svarið að vera já. Ég hlýt að mega fara eftir minni sannfæringu, er það ekki? Kannski vil ég nýta mér alla þá frábæru læknisaðstoð, meðferðir og líknarmeðferð sem er í boði. Ég er mjög þakklát fyrir að þessi aðstoð sé til.  En hvað ef ég vil velja annað? Hvað ef sjúkdómurinn sem mun leiða mig til dauða hefur þau áhrif að ég breytist í einhvern sem ég kannast ekki við og vil ekki vera? Þá myndi ég kannski ekki vilja þiggja neina aðstoð. Ef ég met það þannig að líf mitt sé hægt og rólega að fjara út, að ég geti ekki lengur stjórnað líkama mínum eða huga, að sjálfsmynd mín sé að hverfa, hvað er þá í boði?

Á Íslandi er ekki neitt í boði. En víða í heiminum er löglegt að fá aðstoð til að deyja. Þá er litið svo á að það sé val hvers og eins hvaða leið hann velur.

Eiginmaður minn, sem var Íslendingur, var frá upphafi sinna veikinda á því að hann vildi ekki deyja bjargarlaus í morfínmóki. Hann hafði alltaf verið mjög sjálfstæður maður sem var vanur að koma hlutum í verk, stjórna og taka ábyrgð. Hann gat því miður ekki stoppað dauðann, en hann fékk að velja hvenær og hvernig hann dó. 

Eiginmaður minn fékk dánaraðstoð vegna þess að við vorum svo lánsöm að ég er svissnesk og þekkti því vel hvað var í boði þar. En hann hefði ávallt kosið að fá að binda enda á líf sitt hér á Íslandi, hefði það verið í boði. Það var hans ósk að ég myndi vekja máls á þessu og berjast fyrir því að innleiða og löggilda dánaraðstoð á Íslandi.

Eftir að ég fyrst ræddi opinberlega um val eiginmannsins í fjölmiðlum, hef ég fengið mörg jákvæð viðbrögð frá einstaklingum sem eru hlynntir því að þessi valkostur sé í boði á Íslandi. Starfsfólk sem starfar í heilbrigðskerfinu hefur þó stundum haldið því fram að engin eftirspurn sé eftir slíkri þjónustu hér á landi. Rökin finnst mér ekki ýkja sterk, þar sem það er augljóst að engum muni detta í hug að biðja um eitthvað sem ekki er í boði. 

Það er orðið tímabært að koma umræðunni um dánaraðstoð á hærra plan. Í byrjun janúar fengum við til landsins lækninn Rob Jonquière, sem var í forystu í baráttunni fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks í Hollandi við setningu laga um dánaraðstoð árið 2001. Rob sinnir í dag starfi framkvæmdastjóra World Federation of Right to Die Societies.

Ósk mannsins míns er komin á blússandi ferð því að fimmtudaginn 26. janúar verður stofnað félag um dánaraðstoð á Íslandi, sem mun bera nafnið Lífsvirðing. Ég treysti Íslendingum, sem hafa svo oft og mörgum sinnum sýnt að þeir eru með opið hugarfar, að ræða dánaraðstoð á málefnalegan og yfirvegaðan hátt, og vinna að þvi að lögfesta þessi réttindi hér á Íslandi.

Greinarhöfunur er Sylviane Lecoultre. Birtist 24. janúar 2017.