Ræðum dánaraðstoð

Í janúar 2024 eru 7 ár liðin frá því að Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð var stofnað. Tilgangur félagsins er í fyrsta lagi að stuðla að opinni, málefnalegri og víðtækri umræðu um dánaraðstoð.

Við leggjum áherslu á að einstaklingur hafi yfirráð yfir líkama sínum, lífi og dauða. Í öðru lagi að vinna að því að samþykkt verði löggjöf um það við vissar, vel skilgreindar aðstæður, og að uppfylltum ströngum skilyrðum, verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá sem kjósa að deyja á eigin forsendum. Við teljum að dánaraðstoð með skýrum skilyrðum teljist til mannréttinda. Í þriðja lagi að standa fyrir upplýsingagjöf, fundum og ráðstefnum um dánaraðstoð og vera í góðum tengslum við sambærileg félög erlendis. Félagið á í norrænu samstarfi og er aðili að World Federation of Right to Die Societies eða heimssamtökum félaga um dánaraðstoð.

Hvað er dánaraðstoð?

Til að ekki verði hugtakaruglingur er mikilvægt að skýra hvað felist í dánaraðstoð en hún er sá verknaður að binda enda á líf einstaklings af ásetningi og að ósk hans. Í langflestum tilfellum er einstaklingi veitt aðstoð við að ljúka lífi sínu vegna óbærilegra þjáninga eða langvinns og/eða ólæknandi sjúkdóms. Dánaraðstoð er EKKI:

    • líknarmeðferð eða lífslokameðferð
    • þegar næringu eða meðferð svo sem öndunarstuðningi er hætt
    • þegar sjúklingur fær aukna verkjalyfjameðferð, t.d. morfín, í þeim tilgangi að flýta dauðastundinni
    • meðvitað athafnaleysi læknis sem veitir sjúklingi ekki þá meðferð sem gæti lengt líf hans
    • þegar læknir styttir líf sjúklings án vilja hans
    • úrræði sem hægt er að grípa til vegna ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu eða sálfræðilegrar aðstoðar

Hvar er dánaraðstoð leyfð?

Um þessar mundir er dánaraðstoð heimiluð í átta Evrópulöndum, 11 fylkjum í Bandaríkjunum og í Kólumbíu, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Síðan 2015 hafa mörg lönd og fylki bæst í hópinn sem heimila dánaraðstoð, líkt og sjá má í meðfylgjandi töflu:

Evrópa Fylki í Bandaríkjunum Önnur lönd
Holland (2002) Oregon (1997) Kólumbía (1997)
Belgía (2002) Washington (2009) Kanada (2016)
Lúxemborg (2009) Montana (2009) Ástralía (2017-2022)
Sviss (1937) Vermont (2013) Nýja Sjáland (2019)
Þýskaland (2020) Kalifornía (2016)  
Spánn (2021) Colorado (2016)  
Austurríki (2022) District of Columbia (2017)  
Portúgal (2022) Hawaii (2019)  
  New Jersey (2019)  
  Maine (2019)  
  New Mexico (2021)  

Dánaraðstoð er háð ströngum skilyrðum

Skilyrðin í Hollandi, þar sem greinarhöfundur þekkir best til, eru mjög ströng. Einstaklingurinn þarf að gera lífsskrá og vera þá með fullu ráði og rænu og með óbærilega verki sem ekki er hægt að lina. Ósk hans þarf að vera sjálfviljug og vel ígrunduð og líkamlegt og andlegt ástand hans að vera vottað af tveimur læknum, yfirleitt heimilislækni eða sérfræðilækni og öðrum óháðum lækni. Læknirinn þarf að gæta læknisfræðilegrar vandvirkni við að binda enda á líf einstaklingsins og skila síðan skýrslu til nefndar sem fer yfir hvort lögunum hafi verið fylgt í hvívetna. Öll frávik geta varðað lög og réttindamissi.

Viðhorf heilbrigðisstarfsfólks til dánaraðstoðar

Vor 2023 fól Alþingi heilbrigðisráðherra að láta gera könnun um viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, sjúklinga og almennings. Gallup annaðist framkvæmd könnunarinnar og voru niðurstöðurnar birtar á vef Alþingis 8. júní 2023. Þær sýna að meirihluti lækna eða 56% er hlynntur (alfarið, mjög eða frekar) dánaraðstoð, yfirgnæfandi meirihluti hjúkrunarfræðinga eða 86% og mikill meirihluti sjúkraliða eða 81%.

Séu þessar niðurstöður bornar saman við eldri kannanir má greina mikla viðhorfsbreytingu. Árið 1995 töldu aðeins 5% lækna og 9% hjúkrunarfræðinga líknardráp, nú dánaraðstoð, réttlætanlegt. Árið 2010 var hlutfallið komið í 18% meðal lækna og 20% meðal hjúkrunarfræðinga. Í viðhorfskönnun Brynhildar K. Ásgeirsdóttur (2021) kom fram grundvallarbreyting en þá höfðu 54% lækna og 71% hjúkrunarfræðinga jákvætt viðhorf til dánaraðstoðar.

Í töflunni hér fyrir neðan má að stuðningur heilbrigðisstarfsfólks við dánaraðstoð hefur vaxið mikið:

Viðhorf samtaka sjúklinga til dánaraðstoðar

Þegar rýnt er í niðurstöður samtaka sjúklinga sést að 84,4% sjúklinga eru hlynntir því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi, 9,4% eru hvorki hlynntir né andvígir og 6,1% eru andvígir. Í könnuninni tóku þátt Félag lungnasjúklinga, Heilaheill, Kraftur, MS-félag Íslands og Parkinsonsamtökin á Íslandi.

Viðhorf almennings til dánaraðstoðar

Gerðar hafa verið skoðanakannanir á afstöðu almennings til dánaraðstoðar frá 2015. Í meðfylgjandi töflu má sjá að stuðningur almennings við dánaraðstoð hefur verið mikill í gegnum tíðina.

Þingsályktunartillaga um dánaraðstoð

Í upphafi 2024 mun Bryndis Haraldsdóttir, sem er fyrsti flutningsmaður, mæla fyrir tillögu til þingsályktunar sem felur heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram frumvarp til laga sem heimilar dánaraðstoð. Meðflutningsmenn eru Hildur Sverrisdóttir (D), Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P), Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (B), Hanna Katrín Friðriksson (C), Björn Leví Gunnarsson (P) og Þórunn Sveinbjarnardóttir (S).

Víðtæk umræða er mikilvæg

Umræðan um dánaraðstoð snertir bæði sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og hlutverk heilbrigðisstarfsfólks í að veita dánaraðstoð. Lagalegar áskoranir felast m.a. í því að smíða góðan lagaramma, tryggja gott eftirlit og vernda viðkvæma hópa. Það er mikilvægt að við nálgumst þetta viðkvæma málefni frá öllum hliðum og að sem flestar raddir og sjónarmið heyrist.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 25. janúar 2024.