Rétturinn til sjálfræðis: Ákvarðanir um eigið líf og dánaraðstoð

Spurningin um réttinn til að taka ákvarðanir um eigið líf, þar með talið réttinn til að ljúka því, vekur upp flóknar vangaveltur og krefst ígrundunar um frelsi einstaklingsins og mörk þess.

Til að tryggja réttlátt samfélag styðjumst við við lög sem viðhalda jafnvægi einstaklingsfrelsis og hagsmuna annarra.

En er það ósvifið að telja sig hafa rétt á að biðja um aðstoð við að deyja, af ástæðum sem eru einstaklingnum og hans nánustu augljósar? Þegar læknar og aðrir sérfræðingar eru sammála um að sjúkdómsþróun muni óhjákvæmilega enda með dauða? Þegar það eina sem þeir vita ekki er nákvæmlega hvenær? Þegar einstaklingur þjáist ekki bara líkamlega og andlega heldur upplifir að líf hans sé merkingarlaust og lífsgæðin verulega skert? Þegar hann upplifir ekki lengur ánægju af samverustundum með ástvinum og óskar þess að getur kvatt þá meðan hann hefur enn styrk og getu til þess, með fulla meðvitund? Hvaða rétt hefur hann þá til að biðja um dánaraðstoð? Og hvernig myndi slík ákvörðun hafa áhrif á frelsi og réttindi annarra?

Þessar spurningar eru ekki einungis persónulegar eða einstaklingsbundnar; þær krefjast þess að við ígrundum djúpt hvaða gildi við viljum að samfélag okkar standi fyrir og hvernig við getum best stutt við þá sem standa frammi fyrir erfiðustu ákvörðunum lífs síns, á meðan við virðum réttindi og velferð allra í samfélaginu.

Spyrjum okkur spurninga

Stuðningur yfir 75% Íslendinga við lögleiðingu dánaraðstoðar undirstrikar þörfina fyrir að þróa viðeigandi lög sem virða bæði sjálfræði einstaklingsins og sameiginleg siðferðisviðmið. Mikilvægar spurningar sem þarf að velta fyrir sér eru:

  • Hvernig getum við mótað lög um dánaraðstoð sem vernda og viðurkenna frelsi einstaklingsins til að taka meðvitaðar og upplýstar ákvarðanir um eigið líf og lífslok, án þess að skerða grundvallarréttindi annarra?
  • Hver eru raunveruleg áhrif þess að lágt hlutfall (6%) andstæðinga lögleiðingar dánaraðstoðar geti haft talsverð áhrif á möguleikann á að einstaklingar sem þjást af óbærilegum sársauka geti valið að binda enda á þjáningu sína á eigin forsendum? Er réttlætanlegt að lítill minnihlutahópur geti komið í veg fyrir að slík valfrelsi sé veitt?
  • Hvernig getum við tekið tillit til vilja meirihluta þjóðarinnar sem er jákvæður gagnvart lögleiðingu dánaraðstoðar, í ljósi þess að sumar starfsstéttir og stjórnmálamenn hafa verið tregir til að ræða málefnið? Er þögn eða neitun til þátttöku í umræðunni jafngildi þess að hunsa lýðræðislegan vilja þjóðarinnar?

Áskoranir í heilbrigðiskerfinu

Heilbrigðiskerfið, sem er grundvallað á meginreglunni um að lækna og bæta lífsgæði, stendur frammi fyrir djúpstæðum áskorunum og siðferðilegum mótsögnum þegar kemur að umfjöllun og framkvæmd dánaraðstoðar. Læknar og hjúkrunarfræðingar, sem hafa helgað starf sitt og fagmennsku því að bjarga lífum og lina þjáningar, kunna að upplifa innri togstreitu þegar þeir standa frammi fyrir beiðni um dánaraðstoð.

Mikilvægt er að undirstrika að í löndum þar sem dánaraðstoð hefur verið lögleidd, er lögð rík áhersla á rétt heilbrigðisstarfsfólks til að virða eigin siðferðislegar skoðanir og sannfæringu. Enginn heilbrigðisstarfsmaður er skyldaður til að veita dánaraðstoð ef það stangast á við persónulega sannfæringu hans eða fagleg gildi. Þetta ákvæði tryggir að heilbrigðisstarfsfólk geti viðhaldið faglegum og persónulegum heilindum án þess að finnast það vera neytt til að taka þátt í aðgerðum sem það telur siðferðilega eða faglega óviðunandi.

Opin umræða um dauðann og dánaraðstoð

Það er brýnt að við förum í víðtæka, málefnalega og upplýsta umræðu um dauðann og dánaraðstoð, umræðu sem er laus við fyrirfram myndaðar skoðanir og tabú. Að ræða dauðann, hvort sem er okkar eigin eða annarra, ætti að vera hluti af heilbrigðum samskiptum við ástvini og í samfélaginu í heild. Það krefst þess að við viðurkennum dauðann sem órjúfanlegan hluta af lífinu.

Heilbrigðisstarfsfólk, sem stendur oft í fremstu röð við umönnun við lífslok, þarf að geta rætt um dánaraðstoð án ótta við fordóma eða stimplun. Lögfræðingar og heimspekingar spila lykilhlutverk í að móta lagarammann og siðferðislegar leiðbeiningar sem styðja við rétt einstaklinga í tengslum við dánaraðstoð. Þeirra framlag er ómetanlegt í að skapa vettvang fyrir opna umræðu sem tekur tillit til mismunandi sjónarmiða og virðir mannlega reisn.

Ræktum menningu sem leyfir opinskáa umræðu um dauðann

Dánaraðstoð vekur upp marglaga spurningar um lífsgildi, sjálfræði og samfélagslega ábyrgð. Að takast á við þessar spurningar krefst þess að við séum bæði hugrökk og nærgætin. Við verðum að rækta menningu sem leyfir opinskáa umræðu um dauðann, þar sem við leitumst við að skilja og virða óskir og þarfir hvers og eins á þessum viðkvæmustu stundum lífsins.

Í gegnum slíka umræðu getum við unnið að því að finna jafnvægi milli frelsis einstaklingsins til að ráða eigin lífslokum og þeirrar samfélagslegu ábyrgðar að vernda þá sem eru viðkvæmir. Þetta er ferli sem krefst samtals, samkenndar og djúpstæðrar skilnings á flóknum siðferðislegum, lagalegum og mannlegum þáttum sem umlykja dánaraðstoð.

Greinarhöfundar: Sylviane Lecoultre & Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 19. febrúar 2024.