Tíu fullyrðingar og svör um dánaraðstoð

Með framlagningu frumvarps um dánaraðstoð á Alþingi hefur opnast nýr kafli í umræðunni um þetta viðkvæma málefni.

Mikilvægt er að svara þeim fjölmörgu spurningum og áhyggjum sem vakna í tengslum við dánaraðstoð. Hér fyrir neðan eru nokkrar algengar fullyrðingar eða skoðanir sem þekktar eru í umræðunni um dánaraðstoð, ásamt svörum sem miða að því að veita skýrari mynd af málefninu.

Algengar fullyrðingar Svar
Dánaraðstoð samræmist ekki grundvallarhugmyndum læknisfræðinnar um að viðhalda lífi. Læknir yrði settur í mjög sérkennilegt hlutverk ef hann ætti að veita dánaraðstoð. Í þeim löndum þar sem dánaraðstoð er heimiluð er ekki hægt að þvinga lækni til að veita dánaraðstoð; hann hefur ótvíræðan rétt til að neita. Einstaklingur á ekki rétt á dánaraðstoð; hann á aðeins rétt á að biðja um dánaraðstoð.

Með snemmtækri og markvissri líknandi meðferð er hægt að draga úr nær öllum verkjum. Það þarf enginn að óttast óbærilegar þjáningar við lok lífs. Dánaraðstoð er því óþörf.

Þrátt fyrir framfarir í líknandi meðferð og verkjastjórnun eru takmörk fyrir því að útrýma allri líkamlegri þjáningu sem fylgir alvarlegum sjúkdómum. Andleg og tilvistarleg þjáning, sem getur birst í formi ótta, einmanaleika, ósjálfstæðis og skertra lífsgæða, er jafn mikilvæg. Margir tala í þessu samhengi um að vilja halda reisn sinni.

Læknar hafa fullyrt að á löngum ferli sínum hafi skjólstæðingar þeirra aldrei lýst yfir ósk um dánaraðstoð. Þeir fullyrða að það sé lítil eftirspurn eftir dánaraðstoð á Íslandi.

Það kemur ekki á óvart að einstaklingar hafi ekki óskað eftir því að læknir veiti þeim aðstoð við að deyja enda er slíkt bannað með lögum. Ef þannig ósk hefur komið fram hefur henni verið sinnt í andstöðu við núverandi lög.

Lögleiðing dánaraðstoðar myndi skapa þrýsting á fólk um að þurfa að réttlæta vilja sinn til að lifa.

Það er grundvallaratriði að hver einstaklingur hafi rétt til að taka ákvarðanir um eigið líf og lífslok, án þess að þurfa að réttlæta þessar ákvarðanir fyrir öðrum. Lögleiðing dánaraðstoðar ætti frekar að styrkja sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga með því að bjóða upp á fleiri valkosti í meðferð við lok lífsins.

Læknar eiga ekki að „leika Guð almáttugan“ og ákveða dauðastundina.

Læknar vinna við það alla daga að hafa áhrif á dauðastund sjúklinga sinna. Með sömu rökum mætti segja að hver sá læknir sem ávísar lyfjum eða framkvæmir aðgerð sem lengir líf skjólstæðings sé að leika Guð.

Umræðan um dánaraðstoð hefur verið frekar hljóðlát á Íslandi.

Deyjandi einstaklingar eru ekki líklegir til að vera hávær hagsmunahópur. Það er líklegra að hærra heyrist í þeim sem eru andvígir dánaraðstoð. 

Krafan um dánaraðstoð er sett fram vegna þess að einstaklingur vill má burtu erfiðleika, þjáningu og sorg sem fylgir því að vera manneskja. Þjáningin er hluti af lífinu og með því að upplifa hana höfum við möguleika á að þroskast.

Það er ekkert heilagt við þjáningu. Langflestir þeirra sem biðja um dánarstoð eru einstaklingar sem standa frammi fyrir ólæknandi sjúkdómi eða þjáningu sem þeir meta sem óbærilega. Dánaraðstoð snýst um að bregðast við djúpstæðri þjáningu með mannúð, skilningi og virðingu fyrir persónulegum óskum hvers og eins. 

Hætt er við því að alvarlega veikt eða gamalt fólk upplifi sig sem byrði á sínum nánustu og óski eftir dánaraðstoð sem leið til að létta álagið af ættingjum.

Vissulega getur þessi hætta verið til staðar og því er mikil áhersla lögð á það í þjálfun lækna að þeir ræði einslega og ítrekað við einstaklinginn um rök hans fyrir dánaraðstoð til að ganga úr skugga um að óskin sé sjálfviljug og vel ígrunduð og ekki um þrýsting af hálfu ættingja eða aðstandenda að ræða.

Það að leyfa heilbrigðisstarfsfólki að grípa til aðgerða sem hafa andlát einstaklings að markmiði myndi grafa undan trausti og bjóða heim misferli.

Núverandi kerfi, þar sem dánaraðstoð er framkvæmd án formlegrar lagalegrar heimildar, er verra en að lögleiða dánaraðstoð. Með því að leyfa dánaraðstoð með skýrum faglegum ströngum skilyrðum er um leið verið að draga úr líkum á misnotkun og því að farið sé á einhvern hátt gegn vilja einstaklings.

Hví ættu óskir örfárra að hafa jafn mikil áhrif á alla hina? 

Fylgjendur dánaraðstoðar leggja einungis til að hún verði mannúðlegur valmöguleiki við lok lífs. Þeir sem eru andvígir dánaraðstoð geta verið það áfram í lýðræðissamfélagi en verða að sætta sig við að öðrum standi þessi valkostur til boða.

Þar að auki er ekki um að ræða óskir lítils minnihlutahóps því samkvæmt könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu 2022 eru 76,2% almennings frekar hlynntir eða hlynntir dánaraðstoð á meðan aðeins 6,6% eru frekar eða mjög andvígir. Skýrsla heilbrigðisráðherra sem birt var 2023 sýndi að 75,6% eru alfarið, mjög eða frekar hlynntir því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi.

Ákvarðanir um lífslok eiga að vera grundvallaðar á sjálfræði, virðingu fyrir vilja viðkomandi og skilningi á einstaklingsbundinni reynslu. Við þurfum að ræða hvernig við viljum mæta þörfum þeirra sem standa frammi fyrir alvarlegum veikindum og hvernig við getum best tryggt að þeir upplifi mannlega reisn síðustu daga lífs síns, í samræmi við eigin vilja og gildi.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á heimildin.is 3. apríl 2024.